Það er ekki auðvelt að skrifa þetta. Það er ekki auðvelt að birta þessar myndir sem fylgja með hér neðst. Ef ég get hjálpað einhverjum í sömu sporum þá er það algjörlega þess virði og það er eina ástæðan fyrir að ég læt flakka.

Eftir að ég póstaði árangursmyndum inn á spjall hóp “Carb næt” á Facebook rigndi yfir mig skilaboðum frá fólki sem langaði að taka sig á og vantaði aðstoð. Ég tók þá ákvörðun að gera Snappið mitt opinbert (das_83) og halda matardagbók þar inni. Nokkrum dögum seinna eru um 200 manns sem renna í gegnum storyið mitt daglega.

Í kjölfarið fékk ég áskorun um að blogga uppskriftirnar mínar. Ég þurfti aðeins að hugsa málið en svo fannst mér það ágæt leið til að halda utan um þær á einum stað – í stað þess að krota þær á blað sem týnist svo…

Ég er tæplega 34 ára og hef verið í yfirþyngd frá svona 16/17 ára aldri. Ég bætti mjög hratt á mig í menntaskóla og áttaði mig í raun aldrei á því meðan það var að gerast. Mörgum árum seinna (2012) uppgötvast að ég er með sjálfsofnæmissjúkdóm og þegar “sagan mín” er skoðuð töldu læknar líklegt að það hefði byrjað í kringum 1999-2000 – þegar ég bætti svona hratt á mig.

Ég veit ekki hvað ég hef oft farið í átak – og veit varla um átak sem ég hef ekki prufað ef út í það er farið. Sveiflast öfga á milli. Þraukað í 3-4-5 mánuði og sprungið – eða kannski frekar að það hafi komið einhver viðburður þar sem ég ætlaði að leyfa mér smá og halda svo bara áfram næsta dag. “Næsti dagur” kom svo kannski einhverjum mánuðum seinna og að mörgum kílóum viðbættum. Oftast var ég mun þyngri en ég hafði verið þegar síðasta átak hafði byrjað .

Sumarið 2014 var svona wake up moment í lífinu. Þá var ég þyngri en nokkurn tíman áður. Þáverandi samstarfskona hafði náð góðum árangri með því að taka út hveiti, sterkju og sykur og það ýtti við mér. Ég ákvað að taka það út úr mínu mataræði og gekk mjög vel. Frá júní fram í lok nóvember þraukaði ég. Já, ég segi þrauka, því það var rosa mikið af allskonar hlutum sem ég saknaði að geta ekki leyft mér endrum og eins, en ég trúði því að ég væri “allt eða ekkert” manneskja og gæti ekki gætt hófs í mat. Í lok nóvember hafði ég tekið af mér 20 kg en ég sá ekki fram úr því hvernig ég ætti að fara í gegnum jólin svona – samt var bara nóvember. Ég sprakk á limminu og ætlaði bara að halda áfram eftir jólin…sagan endurtók sig.

Ég reyndar kom mér aftur á strik í lok janúar 2015 en unnustinn minn og barnsfaðir lést mjög skyndilega í lok febrúar og þá hafði ég enga orku til að hugsa um neitt tengt mat eða lífsháttum – suma daga borðaði ég ekkert, aðra daga hvað sem er.

Þegar frá leið fór ég að huga að því hvað ég væri að borða og í júní 2016 vigtaði ég mig í fyrsta sinn í mjög langan tíma. Ég hafði komið út á sléttu þennan tíma, það er að segja að þessi 20 kíló sem ég hafði náð af mér, voru enn af mér. Þá tók ég ákvörðun um að halda áfram. Ég skoðaði vel hvað það var sem varð alltaf til þess að ég “féll” og það var alltaf það sama – viðburður þar sem matur sem var ekki æskilegur á mínu mataræði var í boði. Ég einhvernveginn náði aldrei að sætta mig við að “mega aldrei aftur borða þetta eða hitt” ákvað þessvegna að nú þyrfti ég að prufa aðra leið. Hugsunin mín “í átaki” var oftar en ekki “þegar ég er komin í kjörþyngd þá ætla ég sko að fá mér…”. Mér finnst það fyrsta varúðarmerki um að viðkomandi lífstíll muni ekki henta til frambúðar.

Ég kynnti mér carb night vel. Hafði grúskað í lkl en hafði áhyggjur af því að geta ekki stoppað eftir hleðslurnar og það var ástæðan fyrir því að ég hafði alltaf verið “allt eða ekkert” manneskjan. Ég hugsaði þetta fram og til baka en ákvað að láta á þetta reyna. Ég hefði þá tækifæri til að leyfa mér eitthvað, án þess að því fylgdi samviskubit og hugsuninn um “að nú væri allt ónýtt”.

20. júní 2016 var dagur 1 í hreinsun. Það gekk mjög vel og hér er ég enn. Sjö mánuðir liðnir og í fyrsta skipti finnst mér ég ekki þurfa að neita mér um nokkurn skapaðan hlut. Mér finnst ég hafa lært að umgangast mat og það skondna er að þegar það kemur að hleðslu, þá langar mig oft ekkert í neitt. Stundum er planið að fá sér allt mögulegt og keypt inn samkvæmt því, en þegar kemur að hleðslunni þá er magamálið bara allt annað en það var áður og nammið safnast upp inn í skáp eða hreinlega fer í ruslið.

Mér líður mjög vel á þessu mataræði. Er mun orkumeiri en ég var. Nýt þess að borða góðan mat, þegar ég er svöng og eins mikið og mig langar í hverju sinni. Get fengið mér ábót. Þarf ekki að pína í mig skammtinn til að klára. Eldamennskan er einföld. Búðarferðirnar ódýrari. Ég þarf ekki að troða í mig morgunmat – á meira að segja ekki að borða í að minnsta kosti 2 klst eftir að ég vakna. Þarf ekki að vigta og mæla. Get fengið mér kökur eða nammi eða snakk eða hvað sem hugurinn girnist einu sinni í viku (5-14 daga fresti). Aðalmálið er held ég það að núna kann ég að stoppa. Mér finnst ég heldur ekki vera að þrauka neitt – heldur bara búin að finna takt sem hentar mér vel. Þegar kom á daginn þá var ég bara alls ekkert “allt eða ekkert” týpan.

Síðan í lok júní eru farin 22,5kg. Í heildina 42,5 kg. Það eru farnir 126 cm af ummáli. Svo ótrúlega fyrirhafnarlaust. Fitu% hefur lækkað svo um munar og vöðvamassinn aukist. Ég er komin niður um 4-5 fatastærðir – get verslað föt í almennum fataverslunum og þarf ekki að taka stærstu stærð!

Ég sé ekki alveg breytinguna á sjálfri mér. Svona svipað eins og þegar ég var að fitna. Hugurinn fattar þetta ekki alveg. Ég er enn að taka öftustu flíkina á fataslánni í búðum og máta (stærstu stærðirnar eru yfirleitt aftast) og þarf svo að skipta niður um stærðir. Mér fannst ég aldrei svona feit – og núna finnst mér ég bara eins. Svo sé ég myndir og þá blasir þetta við mér svart á hvítu. Svakalegur munur. Ég er varla þekkjanleg!

Ég á samt nóg eftir, svona 25kg á að giska. Í dag var vigtun hjá mér og ég er komin niður fyrir þá þyngd sem ég hef verið léttust sem fullorðinn einstaklingur. Það var 2006! Ég hlakka til að halda áfram.

 

Advertisements